Friday, March 29, 2013
Páskafrí á Akureyri
Hæ
Nú er ég á Akureyri. Við höfum farið í mörg ár um páskana á skíði á Akureyri og þetta er orðin eins konar hefð. Þau fara upp í fjall en ég er niður í bæ að skoða lífið. Í gær fór ég niður í bæ (og þá meina ég "niður") því að það var eins og að klífa fjall að labba upp gilið aftur. En ég átti góðan dag, sat í Eymundson og las bók í langan tíma og endaði á að kaupa hana. Svo gekk ég um bæinn og naut lífsins í góða veðrinu. Það voru ekki margar búðir opnar en ég náði að skanna þær flestar. ;)
Ég tók með mér heklubútana fallegu sem að ég veit ekki ennþá hvað verður úr og lopapeysu sem þarf að vera búin fyrir Reiðhallarballið sem verður einhvern tíman í endaðan apríl. Peysan gengur vel ég er næstum komin upp að ermum, en ég hef ekki tekið upp heklið. Á myndinni hér fyrir ofan sjáið þið heklið, er þetta ekki æði? Ég fæ bara ekki nóg af því að gera þessa búta og svo það sem að er ekki minna skemmtilegt er að horfa bara á þá. Skrítin ég veit, en það er partur af handavinnunni hjá mér. Að horfa.
Hérna fyrir ofan setti ég líka mynd af bútasaumnum sem að ég er að gera, "trip around the world" ég er mjög ánægð með litina, þeir eru akkurat það sem talar til mín núna. Ég má hafa mig alla við að sauma þetta teppi því að ef að ég geri teppi á rúmið mitt þá þarf ég átta í lengd og átta í breidd. Það gera 64 bútar og það ætti að klára allt ljóst efni sem að ég á. Nei annars ég held að ég þurfi að versla smá ;-) Gott.
Annars sendi ég bara bestu kveðjur frá Akureyri
Edda Soffía
Follow my blog with Bloglovin
Tuesday, March 26, 2013
Buddu kvöld
Góðan dag
Í gærkveldi komum við vinkonurnar saman að sauma niður í búð. Þær voru að sauma buddur sem að ég kunni að gera og var því að leiðbeina þeim aðeins. Þær gerðu tvær buddur hvor og voru voða ánægðar með útkomuna. Ég hafði saumað svoleiðis áður og þær eru þarna á myndunum líka. Á meðan var ég að sauma teppi sem er kallað "trip around the world". Ég var búin að gera eina í afganga bútum eins og þetta teppi á í rauninni að vera en fanst það ekki flott og heldur ekki betri helmingnum, svo að ég prófaði að sauma í mínum litum og líkaði okkur þá betur við þetta. Í gær gerði ég svo fimm blokkir í viðbót og ég held persónulega að þetta verði voða mikið ég. Ég reyndi að taka mynd eftir að ég byrjaði að skrifa þetta Blogg en get þá ekki sett hana inn svo að ég held að ég geri það bara næst.
Borðtuskurnar hjá mér eru ekki allar svona fínar, en þessi var gerð úr afgöngum og oft eru þær prufustykki í leiðinni. Ég held að ég hafi verið að gera stjörnuhekl þarna. Allar mínar borðtuskur eru og hafa verið í mööörg ár prjónaðar og heklaðar. Ég fór að gera þetta fyrir mörgum árum og get ekki og líkar ekki við keyptar tuskur. Það hafa allir sína sérvisku. ;)
Heklaða teppið gengur vel en nú er ég að verða leið á því svo að það gæti farið að verða búið. Í upphafi var ég að hugsa um stórt teppi fyrir okkur en núna er það komið í góða barnastærð svo að ég gæti bara heklað kant utan um það og verið búin. En þá kemur upp í hugann að ég gæti líka sett það inn í skáp og hvílt mig aðeins á því og tekið það út seinna og gert það eins stórt og ég verð í stuði fyrir þá stundina. Þetta er það góða við að gera heklaða búta maður ræður ferðinni. ;)
Bestu kveðjur úr Borgarnesi
Saturday, March 23, 2013
Saumadagur
Sælar
Nú hef ég verið að prófa að gera þessa tösku, sem að er í laginu eins og stórt pennaveski og ekkert mál að gera hana í þeirri stærð sem að hentar. Ég valdi svolítið erfitt efni, því að það er svo erfitt að finna eitthvað (hjá mér) sem passar við litinn. En það var ekkert mál þá var þetta bara gert einlitt. Í gegn um tíðina hef ég ekki verið alveg sátt við bláa litinn og því er ég að reyna að sættast við hann. Ég notaði því gamaldags bláan lit í útsauminn og ég held að þetta hafi komið nokkuð vel út. Ég tók mynd af öllum endum svo að hægt væri að sjá þetta vel. Á mánudagskvöldið hittumst við vinkonurnar svo til að sauma og þá ætlaði ég að kenna þeim þetta :-)
Páskaliljuna fann ég einhversstaðar á bloggi og var svo vitlaus að ég gleymdi að geyma slóðina svo að núna finn ég hana ekki. Ekki gott. Hún er voða skemmtileg, en ég get nú ekki séð hvað ég mundi nota hana í. En ég er svo forvitin að ég þarf alltaf að prófa ef að ég sé eitthvað skemmtilegt.
Græna og appelsínugula garnið á að fara í turtles húfi á barnabarn. Ég er með hugmynd sem að ég ætla að prófa að framkvæma. Það verður gaman að sjá hvað kemur út úr því. Ég kanski sýni ykkur hana ef að ég man eftir að taka mynd. ;)
En þetta er nú gott í bili, veðrið er yndislegt og þvotturinn blaktir á snúrunni og önnur vél búin.
Bestu kveðjur úr Borgarfirðinum
Edda Soffía
Wednesday, March 6, 2013
Snjódagur
Ég er búin að vera í Njarðvíkunum að passa frá því á sunnudag og kom svo heim í gær. Eins og ég hef gaman af því að vera hjá Birgittu minni og passa krakkana og vera amma í nokkra daga, þá er líka svo gott að koma heim og hugsa um mitt. Ég vaknaði í morgun við það að Karlotta mín bað mig að keyra sig í skólann. Þegar að ég leit út sá ég ekki neitt nema snjó. Það sást ekki á milli húsa hérna og eins gott að ég keyrði hana. Núna er orðið albjart og eins og þið sjáið þá sést lítið út um gluggan í stofunni hjá mér.
En þetta er auðvitað bara góður dagur til þess að gera handavinnu og ég er líka búin að vera að því. Það hafa bæst við nokkrir bútar í teppið, það stækkar óðum og verður ægilega fínt í sumar þegar að við Gunnar förum á stúfana. Erum alveg ákveðin í því að fara á strandirnar eins og í fyrra. Það er einhvern veginn öðruvísi að ferðast bara tvö, ekki með stelpurnar. Þær eru orðnar svo fullorðnar að þær vilja ekki ferðast með okkur innanlands. ;)
Bestu kveðjur úr Borgarnesi
Friday, March 1, 2013
Sumar dúkur
Hérna kemur það sem ég er búin að vera að gera undanfarið. Dúkurinn er verkefni sem ég byrjaði á þegar ég ver í heimsókn hjá Helgu minni í janúar. Þá sá ég svona líka grænan pakka af fötturum og hugsaði að sjálfsögðu um Birgittu mína sem er svo græn. Þessi var kanski svolítið öfga grænn en það er bara skemmtilegra á sumrin. ;) Ég reyndi að slá örlítið á með því að setja rauð jarðaber og rauðan kant og er bara ánægð með árangurinn.
Peysan sem þið sjáið er prjónuð úr lopa og kittens mohair og bara eftir mínu höfði. Ég er mjög ánægð með hana og nota hana mikið. Kanski eina sem að ég hefði breitt ef að ég væri að gera hana núna þá hefði ég ekki haft hana eins síða.
Bestu kveðjur úr Borgarfirðinum
Hellen Blogsy er að virka fínt, takk fyrir.