Nú ætla ég að setja inn eitthvað af því sem ég er búin að vera að gera undanfarið.
Peysuna var ég að klára og er farin að nota hana en það tók smá tíma að velja tölur á hana. Ég vildi fá rauðar hreyndýratölur en þær voru ekki til svo ég fór í Ullarselið og hitti þar Ástrúnu sem gerir þessar fínu tölur úr kindahornum og litar í nokkrum litum. Ég valdi að sjálfsögðu rauðar og er bara ánægð með þær kanski líka vegna þess að þær eru frekar grófar og ekki allar jafn þykkar.
Flösku jólasveinninn og peysan eru fyrir vinnuna og sló alveg í gegn svo að næsta miðvikudag ætla allar að mæta með rauðan og hvítan lopa til þess að við getum allar gert svona saman. Ég er búin að gera uppskrift af þessu fyrir þær (ég á ekki hugmyndina en skrifa niður lykkjufjölda og mynstur til að auðvelda þeim verkið) ;o)
Blómin eru bara della hjá mér þessa dagana og ég veit í rauninni ekkert hvað ég á að gera við þau en ég finn eitthvað út úr því. Ég er með nokkarar góðar hugmyndir í kollinum og í bígerð.
Svo eru það nú jólasokkarnir, þennan ljósa gerði ég eftir uppskrift sem að ég keypti í Bandaríkjunum í vor, en af því að konunum líkar betur við það sem er prjónað þá bjó ég til uppskrift af prjónuðum sokk og blómið sem er ekki fast ennþá er gert eftir bókinni minni góðu sem að ég er búin að vera að tala um í öðrum bloggum og minnist ekki á frekar. ;o)
Já svo er það nú buddan mín sem geymir öll blómin, hún er gerð úr bútum og uppskriftin er í hausnum á mér. Svona er nú svo margt af því sem að maður gerir, bara út í loftið en er með eitthvað í huga sem að kannski maður hefur séð einhverstaðar.
Nóg með þetta raus, nú skuluð þið bara njóta þess að skoða myndirnar.
Kveðja Soffía frænka