Isabella mín á afmæli 4. júlí og amma hefur alltaf reynt að prjóna eitthvað handa henni í afmælisgjöf. Í ár var þetta eitthvað erfitt hjá ömmu svo að mamma hennar Bellu valdi hvað ég gæti prjónað á hana. Fyrir valinu varð svo þetta pils, sem er algjört æði. Liturinn átti að vera í turkis, en amma átti þetta bómullargarn í lillabláu og af því að Bellan er svo hrifin af lillabláu þá gerði amma svoleiðis á hana. Það er nú ekki hægt að láta mömmu ráða öllu. ;o)
Bellan á svo lítinn bróðir sem verður að fá eitthvað frá ömmu líka, þó að hans afmæli sé ekki fyrr en í endann á desember þá er amma að gera stutterma peysu á hann. Hún er prjónuð í Mandarin Petitt á prjóna nr. 3 og þetta er að fara eitthvað illa í axlirnar á mér, greyið gamla konan. ;o) En hún er nú að verða búin núna. Ég er búin með afturstykkið og er á framstykkinu. Svo eru bara stuttar ermar, önnur röndótt og hin græn með bláum garðaprjóns kant.
Ég vona að þið eigið góðan dag