Monday, November 30, 2009

Gaman, gaman.

Nú er komið að því að sína hvað ég er búin að vera að gera undanfarið. Fyrst sjáið þið púða sem ég er nú eitthvað skrítin að vera að sína ykkur, því að greyið er svo ljótur. Hann er gerður úr öllum grænu afgöngunum mínum og ég sá hann fyrir mér koma miklu flottari út. En hann er semsagt svona og fer þá bara í fellihýsið því að það er gott að lúlla á honum.



Þarna fáið þið að sjá skrímslabuxurnar tilbúnar, með augum og tönnum. Sætar, er það ekki ;o)



Þetta er hyrna sem ég gerði handa einni dótturinni, sem á afmæli á morgun. Hún er grænni en allt sem er grænt.. ;o) Ég gerði þessa hyrnu úr Kauni garninu, sem er bara æðislegt að prjóna úr, maður veit aldrei hvaða litur kemur næst, sem er svo spennandi.



Þessa broddgelti gerði ég í vikunni og er svo skotin í. Þeir fara í pakka hjá einum litlum snáða sem amma þekkir. Það er á hreinu að ég á eftir að gera fleiri svona (búin með einn og annar á leiðinni, eftir að troða og sauma saman).



Að lokum ætla ég að sína ykkur kort sem ég gerði í gær og finnst svo skemmtilegt. Það er eins og bók, sem ég saumaði svo kerta mynd á.



Þetta er nú allt í dag, ég sýni ykkur meira seinna.
Hafið þið það sem allra best.
Kv Soffía frænka

Friday, November 13, 2009

Skrímslabuxur og fl.

Nú er ég búin að vera að prjóna og hekla ein og vitlaus en ekkert gengið frá endum eða annað sem þarf að gera.



Eins og ég sagði í síðasta bloggi, þá var ég að prjóna vesti á Diamond fyrir jólin. Nú er ég búin að prjóna vestið og á bara eftir að prjóna stroffið á handveg og hálsmál. En þá versnaði í því, ég á ekki meira garn svo að ég verð að bíða eftir að Birgitta komi með krakkana á laugardag í pössun til ömmu. Hún á svona garn og ég held að það sjáist ekkert þó að það sé ekki sama litanúmer vegna þess að þetta er stroffið, alla vega vona ég það.



Nú svo er ég búin með aðrar skrímslabuxur. En auðvitað á ég eftir að sauma tennur og augu á þær svo að þetta verði nú alvöru skrímsli. Þegar ég var að taka mynd af buxunum kom Brína mín og vantaði athygli og þessi mynd var svo skemmtileg, það er eins og hún sé að ræða við mig um þessa handavinnu mína (fallegust og besta kisulóran mín).



Í gærkveldi tók ég líka fram heklunál og rauða garnið og gerði 10 bjöllur í viðbót við mína seríu. núna þarf ég bara að vera dugleg í dag og sauma niður enda og gera augu og tennur og auðvitað stífa bjöllurnar. Já það er nóg að gera hérna hjá mér þessa daganna, en það er nú það sem ég hef svo gaman af.

Svona í lokin, ég skil ekkert í því hvað er að blogginu mínu, það uppfærir sig ekki á síðunni hennar Helgu minnar. Ég hlít að vera búin að rugla svo mikið í því og ýtt á einhvern takka sem stoppar þetta. Hummm......

Kær kveðja
Soffía frænka

Tuesday, November 10, 2009

Jólabjöllur og fl.

Ég gerði 10 jólabjöllur í firra og setti upp í eldhúsinu mínu, glugginn er svo stór að ég sá það eftirá að ég hefði átt að gera 20 ljósa seríu. Nú ætlaði ég að vera voða sniðug og heklaði 10 í viðbót en nennti ekki niður í bílskúr að sækja seríuna frá því í firra þar til ég var næstum búin og þá auðvitað sá ég hvað ég hafði gert. Af því að ég á í einhverjum erfiðleikum með að fylgja mynstri, þá hafði ég breitt og bætt fínu bjöllurnar í firra og gerði svo nákvæmlega eftir uppskriftinni í ár, svo að þá eru þær auðvitað ekki eins ;o) En það er nú allt í lagi því að þetta tekur bara eina kvöldstund að gera og einhver græðir bara á þessu og fær voða fína jólabjölluseríu í ár.





Í gær vorum við Birgitta mín að tala um jólafötin á krakkana hennar. Eftir miklar bollaleggingar var ákveðið að amma prjónaði vesti á litla karlinn og ermar á Belluna. Það var svo ákveðið að vestið yrði rautt og hvítar rendur í stroffinu og ermarnar hvítar. EEnnnn amma fór í búðina að kaupa rautt og hvítt í vestið, þá sá ég að steingrátt var svo fínt með rauðu að ég breytti þessu aðeins. Svo kom ég heim og byrjaði að fitja upp með steingráu garni sem að ég átti og þá var hægt að skila þessari dokku sem að ég var að kaupa. En vitir menn, nú fannst ömmu svo flottur steingrái liturinn að ég hringdi í mömmuna og sagði henni að vestið yrði mikið fallegra steingrátt og með einhverjum öðrum lit í stroffinu. Mamman er svo græn að það var ákveðið að hafa fallega grænan lit með og svo væri þetta mikið sniðugra þá er hægt að nota vestið allt árið þegar maður á að vera fínn. Hérna getið þið séð byrjunina á þessu vesti og amma er að fara út í búð að skipta öllum litunum sem ég keypti í gær því að ég átti nóg í heilt vesti. Svona á maður allt mögulegt ofan í kistu, þegar maður fer að gramsa.



Takk fyrir og hafið það sem allra best
Kv Soffía frænka

Friday, November 6, 2009

Í minningu um tengdamóður mína

21. október misstum við góða og mikla hannyrðakonu. Hún tengdamamma var orðin 93 ára gömul og sat ennþá og prjónaði röndótta sokka og vettlinga daginn út og inn. Hún var heilsuhraust miðað við aldur, en datt eina nóttina og braut á sér ökklann og í kjölfarið þurfti að svæfa hana og negla saman brotið. Hún þoldi ekki svæfinguna og fékk lungnabólgu og dó 10 dögum seinna. þetta var erfiður tími og tók mikið á okkur öll og þá sérstaklega einkasoninn og hennar besta vin. Sigurlaug var mikil hannyrðakona á sínum yngri árum og lærði meðal annars fatasaum á Borðeyri árið 1932. Við höfðum alltaf um eitthvað að tala ég og hún tengdamamma vegna þess að við áttum okkur sameiginleg áhugamál. Blessuð sé minning góðrar konu.



Á meðan við sátum yfir henni á spítalanum þá var ég að sjálfsögðu með handavinnu með mér og heklaði meðal annars þennan trefil sem á að vera jólagjöf handa tengdadóttur okkar (hún veit ekkert af þessu bloggi svo að þetta er nú í lagi). Hann er heklaður úr Kanni garninu og það kom mér mikið á óvart hvað það er gaman að vinna úr því. Maður veit aldrei hvaða litur kemur næst og svo eru skilin á milli litana svo skemmtileg. Þó var það á einum stað sem að garnið hefur verið sett saman og það sáust greinilega vitlaus skil. Eins og flestir vita sem þekkja mig þá er bleikur litur alltaf í sérstöku uppáhaldi hjá mér og kannski var það ástæðan eða eitthvað annað, að ég naut þess alveg sérstaklega að sjá hvernig þetta mynstur kom út. Það var eins og að hekla fallega blúndu. ;o)



Núna undanfarið hef ég verið að prjóna klúta og fann þetta mynstur á netinu. Því miður veit ég ekki hvernig ég á að setja link á þetta. (Helga hjálp) Þessi uppskrift er afar einföld og gaman að prjóna hana og þarf ekkert að hugsa mikið, sem er stundum gott.


Auðvitað er ég búin að vera að gera hellings handavinnu en það er ekki hægt að birta allt hérna svona rétt fyrir jólin ;o)

Hafið þið það nú sem allra best
Kv Soffía frænka
Related Posts with Thumbnails