Um mánaðarmót september, október fór ég á Löngumýri í Skagafirði og þar var að sjálfsögðu feiknar mikið fjör. Við Maja vorum fyrstar þangað, komum um fjögur (smá misskilningur hjá okkur) þetta átti ekki að byrja fyrr en kl sex. En hvað um það okkur var vel tekið og við náðum góðum borðum til að vinna á.
Ég var með sögu á i-potinum mínum og var í eigin heimi mest alla helgina, með undantekningum að sjálfsögðu. ;þ
Þarna var unnið frá því að maður vaknaði, svona um 8:30 á morgnana og fram á miðnætti og þess á milli gekk munnurinn á manni því að það var svo yndislega vel hugsað um okkur í mat.
Það var að sjálfsögðu óvissuverkefni þarna og meira að segja tvö. Fyrsta var ótrúlega sniðugir inniskór sem að við ætluðum aldrei að fatta hvað væri. hahaha...
Svo vorum við látnar velja bakgrunn og var hann annað hvort dökkur eða ljós, ég valdi ljósan. Ég átti að sjálfsögðu ekki nógu mikið af efni til að koma með það sem þurfti svo að ég keypti pakka frá Kristrúnu í Quiltbúðinni og það var svolítið sniðugt því að þar voru efni sem ég hefði aldrei valið sjálf, en komu mjög vel út. Ég náði að klára teppið mitt eins og flestir gerðu. Ótrúlega gaman að gera heilt teppi á einni helgi ;þ
Hérna sjáið þið svo óvissu verkefnið mitt, það var hægt að raða þessu upp á svo marga vegu að það var ótrúlegt að sjá.
Núna um helgina fór ég svo að skera niður í flóafárið mitt sem ég keypti í fyrr á árinu. Ég ætlaði bara að skera niður í teppið því að við erum að endurvekja Bútasaumsfélagið hérna í Borgarfirði og ég þurfti að hafa eitthvað að gera á miðvikudagskvöldið þegar við komum saman. En, hvað haldið þið að ég hafi gert ;Ð Ég gat ekki annað en prufað eina línu, svona bara til að sjá hvernig þetta kæmi út og þá gat ég náttúrulega ekki hætt og ég kláraði toppinn í morgun. ;þ Hérna sjáið þið svo hvernig mitt flóafár kom út.
Núna verð ég að fara í Virku og kaupa mér eitthvað að gera fyrir miðvikudagskvöldið. En ég þarf líka að fá mér vatt og efni í bakið á báðum teppunum mínum.
Á Löngumýri lærði ég að stinga í vélinni minni og því ætla ég að reyna við svoleiðis glannaskap.
Annars finnst mér Flóafárið vera helst til of lítið ég held að ég reyni að setja eitthvað til að lengja það, en ég veit ekki hvernig ég fer að því.
Bestu kveðjur úr Borgarnesi
Edda Soffía