Saturday, January 30, 2010

Nú er ég búin að gera mér prjónabuddu. Ég saumaði saman afganga sem ég átti í fjólubláu og saumaði allskonar skrautsaum í gylltu í rendurnar. Svo til þess að hún væri örugglega ekki bein og skorin þá hallaði ég sniðinu aðeins svo að rendurnar eru á ská. Ég er voða hrifin af prjónabuddunni minn og á eftir að nota hana mikið.
Ástæðan fyrir því að ég fór að gera hana núna, er að daginn eftir að ég kem heim frá U.S.A. þá ætlum við að sauma buddur í féló. Þegar ég ákveð að gera eitthvað með þeim þá vil ég hafa eitthvað til að sýna þeim og þær eru hrifnari af því.Á fimmtudagskvöldið fór ég í Handavinnubúðina, þar var verið að kenna okkur að hekla rússneskt hekl. Þetta er voða gaman og ég sé alveg fyrir mér fallega liti í teppi í fellihýsið. Ég gerði appelsínugult, rautt og gult. Ég er alltaf að sjá fleiri liti sem færu vel með í teppið en ég má bara ekki vera að þessu núna því að ég verð að vera búin með fleiri vettlinga og sokka áður en ég fer út.

Related Posts with Thumbnails