Friday, November 6, 2009

Í minningu um tengdamóður mína

21. október misstum við góða og mikla hannyrðakonu. Hún tengdamamma var orðin 93 ára gömul og sat ennþá og prjónaði röndótta sokka og vettlinga daginn út og inn. Hún var heilsuhraust miðað við aldur, en datt eina nóttina og braut á sér ökklann og í kjölfarið þurfti að svæfa hana og negla saman brotið. Hún þoldi ekki svæfinguna og fékk lungnabólgu og dó 10 dögum seinna. þetta var erfiður tími og tók mikið á okkur öll og þá sérstaklega einkasoninn og hennar besta vin. Sigurlaug var mikil hannyrðakona á sínum yngri árum og lærði meðal annars fatasaum á Borðeyri árið 1932. Við höfðum alltaf um eitthvað að tala ég og hún tengdamamma vegna þess að við áttum okkur sameiginleg áhugamál. Blessuð sé minning góðrar konu.



Á meðan við sátum yfir henni á spítalanum þá var ég að sjálfsögðu með handavinnu með mér og heklaði meðal annars þennan trefil sem á að vera jólagjöf handa tengdadóttur okkar (hún veit ekkert af þessu bloggi svo að þetta er nú í lagi). Hann er heklaður úr Kanni garninu og það kom mér mikið á óvart hvað það er gaman að vinna úr því. Maður veit aldrei hvaða litur kemur næst og svo eru skilin á milli litana svo skemmtileg. Þó var það á einum stað sem að garnið hefur verið sett saman og það sáust greinilega vitlaus skil. Eins og flestir vita sem þekkja mig þá er bleikur litur alltaf í sérstöku uppáhaldi hjá mér og kannski var það ástæðan eða eitthvað annað, að ég naut þess alveg sérstaklega að sjá hvernig þetta mynstur kom út. Það var eins og að hekla fallega blúndu. ;o)



Núna undanfarið hef ég verið að prjóna klúta og fann þetta mynstur á netinu. Því miður veit ég ekki hvernig ég á að setja link á þetta. (Helga hjálp) Þessi uppskrift er afar einföld og gaman að prjóna hana og þarf ekkert að hugsa mikið, sem er stundum gott.


Auðvitað er ég búin að vera að gera hellings handavinnu en það er ekki hægt að birta allt hérna svona rétt fyrir jólin ;o)

Hafið þið það nú sem allra best
Kv Soffía frænka
Related Posts with Thumbnails